• Print

 LÖG BREIÐFIRÐINGAFÉLAGSINS Í REYKJAVÍK

 I. Kafli 

Heiti félagsins og markmið.

1. gr.

Félagið heitir “Breiðfirðingafélagið”, skammstafað B.F.

 Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur félagsins er:

 a)        Að efla og viðhalda kynningu milli Breiðfirðinga, sem búsettir eru heima í héraðinu, og þeirra, sem að heiman eru fluttir.

 

 b)        Að varðveita frá gleymsku sögulegar minjar frá Breiðafirði og sitthvað það, er við kemur lifnaðarháttum þar í héraðinu, sagnir um einstaka menn og atburði, lýsingar athafnalífs og menningar, staðarlýsingar, örnefni og annað það, sem snertir sögu héraðanna og ibúa þeirra.

 

  c)       Að styðja eftir megni öll þau mál, er að dómi félagsins horfa til menningar og hagsbóta héruðunum við Breiðafjörð.

II. Kafli

Félagar.

 3. gr. 

Félagi getur hver sá orðið sem á ættir sínar að rekja til Breiðafjarðar eða hefur verið búsettur við Breiðafjörð. Þegar um hjón eða sambýlisfólk er að ræða og annað uppfyllir téð skilyrði öðlast maki þess sama rétt.

 

Auk þess getur hver sá orðið félagi, sem vill stuðla að eflingu Breiðfirðingafélagsins með því að vinna að og styrkja tilgang félagsins í samræmi við 2. gr. laga félagsins, liði a, b, og c. Maki eða sambýlisfólk öðlast sama rétt.

 

Listi yfir nýja félagsmenn er borinn upp á aðalfundi félagsins, til samþykktar eða synjunar.

 

4. gr.

Árgjald félaga ákveður aðalfundur hverju sinni fyrir yfirstandandi ár. Skuldi félagi 3 árgjöld, hefur stjórn heimild til að strika hann út af félagaskrá.

Ævigjald félaga er tvítugfalt árgjald þess árs, sem hann gerist ævifélagi. Skal það greitt í einu lagi í eitt skipti fyrir öll.

III. Kafli

5. gr.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málum félagsins. Skal hann haldinn fyrir lok febrúar ár hvert.

Aðalfund skal boða með dagskrá, þar sem greint er frá þeim málum er stjórnin hyggst leggja fram. 

Á aðalfundi skulu eftirtalin mál tekin fyrir:

a) Inntaka nýrra félagsmanna.

b) Skýrsla stjórnar um störf félagsins frá síðasta aðalfundi.

c) Lagðir fram til samþykktar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir næstliðið almanaksár.

d) Skýrslur deilda félagsins.

e) Árgjald félaga ákveðið fyrir yfirstandandi ár.

f) Aðalstjórn félagsins kosin, til eins árs, ásamt varamönnum.

g) Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga, til eins árs, ásamt varamönnum

h) Önnur mál samkvæmt dagskrá

i) Önnur mál utan dagskrár eftir því sem fundarstjóri og fundurinn sjálfur heimila.

Allir félagar eru skyldir til að taka við kosningu í þágu félagsins. Þó geta þeir sem setið hafa í stjórn 3 ár samfleytt skorast undan endurkosningu.

Stjórnarkosning skal vera skrifleg. 

6. gr.

Aðalfund skal boða skriflega með a.m.k. 10 daga fyrirvara, og er aðalfundur lögmætur ef löglega er til hans boðað.

7. gr.

Almennir félagsfundir skulu haldnir þegar stjórnin telur þess þörf og einnig ef henni berst um það skrifleg krafa frá a.m.k. 25 félagsmönnum.

Gilda sömu reglur um boðun félagsfunda og aðalfundar.

8. gr.

Við afgreiðslu almennra mála á félagsfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Atkvæðisrétt hafa þeir félagar einir, sem ekki skulda félaginu árgjald miðað við næstliðin áramót.

IV. Kafli

9. gr.

Stjórn félagsins skipa 5 menn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Varastjórn skipa þeir 2, sem næstir verða aðalmönnum að atkvæðamagni við stjórnarkjör.

Formann skal kjósa fyrst og sérstaklega. Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.


Til að stuðla að stöðugri endurnýjun stjórnar félagsins skal hver stjórnarmaður ekki kjörgengur lengur en fimm ár samfellt. Að ári liðnu er hann þó kjörgengur að nýju.

10. gr.

Stjórn félagsins hefur æðsta vald í málefnum þess milli aðalfunda, ber ábyrgð á rekstrinum og sér um allar framkvæmdir þess. Félagsdeildir, sem stofnaðar eru á vegum félagsins, stjórna sjálfar eigin málum og bera ábyrgð á fjárreiðum sínum.


Skemmtinefndir eru skipaðar af stjórn og starfa þær í umboði hennar. Þar er um að ræða sérstakar nefndir sem hafa umsjón með félagsvist, prjónakvöldum, afmælisvikunni, sem og annarri starfsemi sem félagsmenn vilja sinna.


Stjórnin skipar árlega þrjá menn í húsnefnd og einn til vara, sem annast allan rekstur húseignar félagsins ásamt húsverði. Skal einn nefndarmaður vera aðalmaður í stjórn, einn úr hópi kórfélaga og einn frá öðrum deildum félagsins.

11. gr.

Formaður félagsstjórnar kallar stjórnina saman til fundar svo oft sem þurfa þykir, og ávallt ef þrír stjórnarmenn æskja þess. Kveðja skal til stjórnarfundar með a.m.k. eins dags fyrirvara.

Kalla skal varamenn til í forföllum aðalmanna.

Formaður stýrir fundum félagsstjórnar og er stjórnarfundur lögmætur er meirihluti stjórnarmanna er á fundi. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

12. gr.

Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund skiptir stjórnin með sér verkum.

Á þeim fundi skal stjórnin gera sér starfsáætlun fyrir byrjað starfsár. Skulu þar talin fram þau megin verkefni, sem stjórnin hyggst einbeita sér að á árinu og gerð grein fyrir þeim leiðum, sem hún gerir ráð fyrir að fara, til að ná settu marki. Stjórnin skal halda gjörðabók.

V. Kafli

Ýmis ákvæði.

13. gr.

Undirbúning allan til stjórnarkjörs annast þriggja manna kjörnefnd. Skal hún skipuð af stjórn félagsins fyrir áramót ár hvert. Tekur hún á móti uppástungu frá félögum um val manna í félagsstjórn. 

Nefndinni ber að sjá um, að eigi séu færri í kjöri en tvölöld tala þeirra, sem kjósa á í aðalstjórn.

14. gr.

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki 3/5 þeirra er atkvæði greiða, enda hafi tillögum til lagabreytinga verið skilað til stjórnarinnar eigi síðar en hálfum mánuði fyrir aðalfund og þess getið í dagskrá með fundarboði.

Breytingatillögur við lögin, er síðar kunna fram að koma, skulu því aðeins bornar undir atkvæði, að lagabreytingar séu þegar á boðaðri dagskrá fundarins.

Til þess að slíkar tillögur fái lagagildi þurfa þær stuðning 4/5 hluta greiddra atkvæða.

15. gr.

Breiðfirðingafélaginu má slíta með ákvörðun ¾ hluta atkvæða á löglega boðuðum aðal- eða félagsfundi, enda hafi það fundarefni verið boðað með dagskrá í fundarboði. 

Ef meirihluti greiddra atkvæða styður félagsslit en ekki tilskilinn meirihluti, skal boða til framhaldsaðalfundar eða annars félagsfundar innan 30 daga, þar sem málið verður tekið til afgreiðslu á ný. Á þeim fundi gildir einfaldur meirihluti við atkvæðagreiðslu.

16. gr.

Ef samþykkt verður að slíta félaginu skulu eignir þess renna til stofnana og/eða félaga við Breiðafjörð, er sinna málefnum aldraðra eða starfa að mennta- og menningarmálum.

Nánari ákvörðun skal tekin á slitafundi félagsins.

Svo hljóða lög félagsins eftir samþykktar breytingar á aðalfundi 22. febrúar 2018