• Print

Reglur Breiðfirðingakórsins

1. grein

1.1Kórinn heitir Breiðfirðingakórinn og er deild innan Breiðfirðingafélagsins með sjálfstæðan fjárhag og stjórn.

1.2Skuldbindingar kórsins við Breiðfirðingafélagið: Breiðfirðingafélagið lætur Breiðfirðingakórnum í té afnot af Breiðfirðingabúð gegn því að kórinn komi fram á vegum félagsins samkvæmt nánara samkomulagi milli stjórna Breiðfirðingafélagsins og Breiðfirðingakórsins.

2. grein

2.1 Stjórn kórsins skipa fimm menn – formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur auk varamanns, sem hlýtur flest atkvæði næst réttkjörnum aðalmanni.

2.2 Kjósa skal stjórn árlega á aðalfundi. Kosning skal vera leynileg ef fleiri gefa kost á sér í stjórn en sætin sem kosið er um.

2.3 Formaður skal kosinn á hverju ári, en hann skal ekki sitja sem formaður nema þrjú ár samfleytt. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn, þ.e. tveir hvort ár.

2.4 Stjórnin sér um að tilnefna raddformenn og aðrar nefndir kórsins ef með þarf. Stjórnin hefur heimild til að tilnefna einn úr hverri rödd í uppstillingarnefnd til stjórnarkjörs. Nefndin skal fá minnst tíu kórfélaga til að gefa kost á sér til stjórnarsetu.

3. grein

3.1 Aðalfundur skal haldinn á síðustu æfingu vetrar/vors. Boða skal til aðalfundar með (a.m.k.) 7 daga fyrirvara.

3.2 Hreinn meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála.

3.3 Á aðalfundi skulu eftirtalin mál tekin fyrir:

A) Skýrsla formanns um störf kórsins frá síðasta aðalfundi.

B) Lagðir fram til samþykktar endurskoðaðir reikningar kórsins fyrir næstliðið almanaksár.

C) Stjórn kórsins kosin.

D) Kosnir tveir endurskoðendur.

E) Önnur mál samkvæmt dagskrá.

F) Önnur mál utan dagskrár eftir því sem fundarstjóri og fundurinn sjálfur heimila.

4. grein

4.1 Æfingagjöld skulu ákveðin á aðalfundi fyrir eitt ár í senn.

5. grein

5.1 Gjaldkeri sér um að innheimta æfingagjöld og hefur raddformenn sér til aðstoðar.

6. grein

6.1 Kórfélagar skulu mæta vel og stundvíslega á allar æfingar. Skylt er að láta raddformenn vita fyrir æfingar ef um forföll er að ræða. Mætingaskyldu á hvorri önn skal miða við 70% á kóræfingar. Ef um frekari frávik frá æfingum verður að ræða, hefur kórstjóri og stjórn, heimild til að neita viðkomandi kórfélaga að syngja með á tónleikum kórsins. Raddformenn skulu gefa viðkomandi félaga skriflega aðvörun ef fjarvistir nálgast viðmiðunarmörk.

7. grein

7.1 Aðeins er hægt að breyta reglum þessum á aðalfundi og ber stjórn að senda kórfélögum framkonar breytingatillögur með fundarboði.

8. grein

8.1 Stjórn sér um að ráða kórstjóra og gera við hann starfssamning.

8.2 Kórstjóri sér um alla faglega þjálfun kórsins þar með talið raddprófun ef þurfa þykir. Kórstjóri ræður undirleikara og aukaþjálfara í samráði við stjórnina. Stjórnin semur um launakjör starfsmanna kórsins.

8.3 Kórstjóri sér um að raddprófa þá sem vilja ganga í kórinn og vega og meta hæfni viðkomandi. Inntaka, eða höfnun inntöku í kórinn, skal byggð á þessu hæfnismati og er á ábyrgð kórstjóra og stjórnar. Miða skal við að fjöldi kórfélaga fari ekki yfir 50.

9. grein

9.1 Allar stærri ákvarðanir sem varða kórstarfið skal bera undir kórinn í atkvæðagreiðslu. Hreinn meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála.

10. grein

10.1 Allur ágóði af samsöngvum kórsins svo og aðrar tekjur hans renni í kórsjóð, sem ávallt skal geymdur og ávaxtaður á öruggan hátt.

11. grein

11.1 Ef rétt þykir að slíta kórnum skal boða til fundar um það mál á sama hátt og til aðalfundar. Verður kórnum því aðeins slitið að 2/3 fundarmanna samþykki það og skal a.m.k. helmingur kórfélaga vera mættir á fundinum. Ef kórslit eru löglega samþykkt, ráðstafar sami fundur sjóði kórsins og öðrum eignum.

12. grein

12.1 Þessar reglur öðlast þegar gildi.

 

Samþykkt á aðalfundi kórsins 9. febrúar 2005.