Fréttabréf Breiðfirðingafélagsins
- Ólína Kristín Jónsdóttir
- Sep 7
- 3 min read
Kæru félagsmenn,
Vonandi hafið þið átt gott og gjöfult sumar umlukin ættingjum og vinum. Og vonandi hafa sem flestir haft tækifæri til að heimsækja ræturnar sem liggja í nágrenni Breiðafjarðar.
Stjórn félagsins hélt sinn fyrsta fund í síðastliðinni viku og starfsemi í vetur liggur að miklu leyti fyrir. Vonandi finna allir eitthvað fyrir sig. Við vekjum athygli á að allir viðburðir eru auglýstir á fésbókarsíðu Breiðfirðingafélagsins og á heimasíðunni okkar: www.bf.is
Stjórnina skipa Ólína Kristín Jónsdóttir formaður, Guðný Dóra Gestsdóttir varaformaður, Ólöf Inga Guðbjörnsdóttir gjaldkeri, María Játvarðardóttir ritari, Ásthildur Sóllilja Haraldsdóttir, Lísa Margrét Sigurðardóttir Breiðfjörð og Sólveig Aradóttir. Í varastjórn, sem boðuð er á alla stjórnarfundi eru: Guðrún Þorleifsdóttir, Helgi Sæmundsson, Sigurbjörn Einarsson og Sigurjón Björn Sveinsson.
Við óskum eftir fólki i skemmtinefnd til að undirbúa Kótilettukvöldið í nóvember. Ólöf Inga verður skemmtinefndinni innan handar. Endilega hafið samband ef þið eruð til í að vera með. Þetta snýst aðallega um skipulag og utanumhald, stjórn mun að vanda hjálpa til við að setja upp salinn og við frágang. Það mun koma annar póstur varðandi þetta.
Talsverðar framkvæmdir hafa verið í Breiðfirðingabúð síðasta vetur og í sumar. Það helsta er að það er komið nýtt hljóðkerfi og búið er að pússa og lakka gólfið svo það lítur út eins og nýtt.
Eftir að gólfið var pússað er talsvert ryk um allt og áætlum við að hafa þrifadag fljótlega þar sem munum óska eftir aðstoð félagsmanna við að þurrka af á erfiðum stöðum, mála eina umferð yfir veggi, ryksuga gardínur og svo framvegis. Við munum senda út annan póst um það.
Einnig væri frábært ef að það væri pípari í félaginu sem hefði tök á að koma og fara yfir klósettin. Endilega látið vita ef að þið hafið tök á því!
Bridge verður spilað alla sunnudaga kl. 18 frá 14. september til 14. desember. Það kostar 1.500 krónur inn, allir velkomnir.
Bridge námskeið verður í þrjú skipti á vegum Ingu Guðmunds. Annanhvern fimmtudag frá 18. september. Það kostar 1.500 krónur inn og kennd verða undirstöðuatriði í standard sagnakerfinu. Það þarf að skrá sig hjá Ingu í síma 8928077 eða inggu1909@gmail.com
Prjónakvöldin vinsælu eru nú þegar byrjuð. Það kostar 1.000 krónur inn og allir eru velkomnir. Þau eru annan hvern mánudag kl. 19:30, næst 15. september og síðasta kvöldið verður 24. nóvember.
Félagsvistin byrjar 25. september og er spilað annan hvern fimmtudag kl. 19:30, síðasta kvöldið 4. desember. Það kostar 1.000 kr inn, allir velkomnir.
Breiðfirðingakórinn mun starfa óbreytt þetta misserið. Kórinn er blandaður kór og getur bætt við sig meðlimum í allar raddir. Ekki hika við að hafa samband ef að þið hafið áhuga á vera með í kórstarfinu.
Kótilettukvöldið árlega verður að þessu sinni laugardaginn 15. nóvember og verður nánar auglýst er nær dregur.
Bingó verður haldið föstudagskvöldið 28. nóvember. Það er alltaf vel heppnað, góðir vinningar og skemmtileg stemning.
Aðventukaffið verður sunnudaginn 7. desember, þar munum við eiga notalega stund að venju.
Breiðfirðingamessa verður í Víðistaðakirkju sunnudaginn 25. janúar. Við endurtökum leikinn frá í fyrra en prestur er séra Bragi J. Ingibergsson frá Hvoli í Saurbæ og Breiðfirðingakórinn syngur. Messukaffi.
Þorrablótið okkar verður svo laugardaginn 31. janúar, endilega takið daginn frá.
Við vonum að þið notið öll þessi tækifæri til að njóta samveru við aðra félaga.
Ef að þið vitið um félaga sem ekki fá þennan tölvupóst megið þið endilega biðja viðkomandi um að senda okkur póst svo að við getum bætt honum við.
Ekki hika við að hafa samband ef að þið hafið einhverjar hugmyndir eða athugasemdir.
Fyrir hönd stjórnar,
Ólína Kristín
_edited_edited_edited_edited.jpg)



Comments